Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar helgast af upphafsorðum frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Hér er lýst í stuttu máli helstu stefnumálum Lýðræðisvaktarinnar ásamt hugmyndum að nánari útfærslu stefnumiðanna. Stefnuskráin er ekki meitluð í stein, heldur mun hún halda áfram að þróast í samræmi við ábendingar, sem Lýðræðisvaktin þiggur með þökkum.

Við viljum

  • Setja lög um eignarhald og nýtingu auðlinda í samræmi við ákvæði nýrrar stjórnarskrár um auðlindir í þjóðareign

Ákvæðið er svona:
Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

  • Tryggja að nýtingarrétti auðlinda í þjóðareigu sé úthlutað á jafnræðisgrundvelli, gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn

Lýðræðisvaktin krefst þess að jafnræðis verði ávallt gætt við úthlutun nýtingarréttar sameiginlegra auðlinda. Gætt verði fyllsta jafnræðis við úthlutun aflaheimilda í framtíðinni í stað þess forréttindakerfis sem verið hefur við lýði. Engin þörf er á því að innkalla aflaheimildir eða semja sérstaklega um þær vegna þess að ríkið úthlutar þeim árlega: Einungis þarf að gæta jafnræðis við næstu úthlutun. Í lögum um stjórn fiskveiða stendur að úthlutun aflaheimilda myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir þeim. Í lögum um samningsveð er skýrt tekið fram að óheimilt sé að veðsetja aflaheimildir. Samkvæmt dómum Hæstaréttar er einnig ljóst að enginn eignarréttur hefur myndast á aflaheimildum. Í gegnum tíðina hefur ríkisvaldið margoft breytt úthlutunarreglum án þess að útgerðarmenn hafi brugðist við. Það undirstrikar þá staðreynd að ríkið setur reglur um úthlutun aflaheimilda og getur hvenær sem er breytt þeim. Komi til málsókna vegna þessa skal þeim mætt af fullum þunga.

Fullt gjald er ígildi markaðsgjalds sem þýðir að ríkið hámarkar auðlindaarð sinn í þágu almannahags. Tímalengd nýtingarréttar getur verið mismunandi milli auðlinda og jafnvel innan sömu auðlindar og því er hóflegur tími tilgreindur.

  • Að landsmenn uppskeri arðinn af eigin auðlindum

Arður af fiskveiðum á Íslandi árin 2009 og 2010 nam alls 92 milljörðum króna. Af þeirri upphæð fékk íslenska ríkið í sinn hlut þrjá milljarða króna. Það eru rúmlega 3%. Samkvæmt nýju fiskveiðistjórnunarfrumvarpi á að festa úthlutun aflaheimilda til núverandi kvótahafa næstu 20 ár. Að óbreyttum arði gerir það 920 milljarða fyrir þá, 30 milljarða fyrir þjóðina. Fyrir utan hróplega misskiptingu mun þetta kalla yfir okkur samfélagslegt misgengi með tilheyrandi spillingu. Þessu hafnar Lýðræðisvaktin.

  • Halda opinberum orkufyrirtækjum í almannaeigu: Landsvirkjun verður ekki seld

Nýfengin reynsla okkar af sölu ríkisfyrirtækja hefur ekki verið góð. Lýðræðisvaktin vill því standa vörð um þau fyrirtæki sem enn eru í opinberri eigu og flana ekki að neinu. Lýðræðisvaktin er hlynnt einkavæðingu en aðeins á virkum samkeppnismarkaði: “Spillt einkavæðing er áfellisdómur yfir spillingu, ekki einkavæðingu.”

  • Skoða lagningu sæstrengs til að selja raforku

Norðmenn undirbúa enn frekari sölu á rafmagni um sæstrengi til Evrópu, m.a. til Bretlands. Norðmenn stefna að því að eftir aldarfjórðung verði gjaldeyristekjur af rafmagnssölu meiri en tekjur af olíuvinnslu.
Landsvirkjun vinnur nú að hagkvæmisathugun á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands. Með sölu á rafmagni um sæstreng má auka verulega þann arð við fáum af orkuauðlindum okkar. Að selja rafmagn frá Íslandi um sæstreng er eitt af þeim verkefnum sem ber að skoða af fyllstu alvöru.

  • Skoða náttúruna sem auðlind sem öllum ber að virða og vernda í samræmi við markmið sjálfbærrar þróunar í þágu komandi kynslóða

Stefna Lýðræðisvaktarinnar í umhverfismálum endurspeglar síaukna meðvitund almennings um náttúruvernd og nauðsyn hennar. Lýðræðisvaktin vill standa vörð um réttindi núlifandi og komandi kynslóða til óspilltrar náttúru, þar eð óspillt umhverfi heyrir til lífsgæða og mannréttinda svo sem kveðið er á um í nýrri stjórnarskrá. Alþingi ber að setja lög um nýtingu náttúrunnar á þann veg, að hvorki verði gengið á rétt náttúrunnar né komandi kynslóða í landinu. Ákvæði nýrrar stjórnarskrár kveða m.a. á um, að fyrri spjöll skuli bætt eftir föngum. Þessum ákvæðum er m.a. ætlað að laða löggjafann til að girða fyrir lausagöngu búfjár og gera almenningi og hagsmunasamtökum kleift að leita til dómstóla varðandi ákvarðanir stjórnvalda, sem áhrif hafa á umhverfi og náttúru, og girða fyrir, að slíkum málum verði vísað frá dómi á grundvelli skorts á lögmætum hagsmunum.

  • Efla dýravernd

Í nýrri stjórnarskrá er kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda í útrýmingarhættu.

Í samræmi við það vill Lýðræðisvaktin að komið sé fram við lífríkið af virðingu, að lífsskilyrði búfjár og gæludýra í umráðum manna hæfi þekktum þörfum þeirra og að umgengni manna við villt dýr einkennist af hófsemi og mildi. Dregið verði eins og frekast er unnt úr verksmiðjubúskap og í hans stað komi búskaparhættir sem einkennast af mannúðarsjónarmiðum. Búfjáreigendum verði gert kleift með sem minnstum tilkostnaði að aðlagast nýjum framleiðsluaðferðum. Eftirlit með dýravelferð verði eflt.

Minnumst orða Mahatma Gandís sem sagði siðmenningu manna og framfarir mætti ráða af því hvernig þeir koma fram við dýr.