Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar helgast af upphafsorðum frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Hér er lýst í stuttu máli helstu stefnumálum Lýðræðisvaktarinnar ásamt hugmyndum að nánari útfærslu stefnumiðanna. Stefnuskráin er ekki meitluð í stein, heldur mun hún halda áfram að þróast í samræmi við ábendingar, sem Lýðræðisvaktin þiggur með þökkum.

Við viljum

 • Sjálfbær sveitarfélög sem njóti nálægðar við auðlindir sínar og fái af þeim réttmætan arð

Sem stendur má líkja sjávarþorpum við olíuríki sem kynda með kolum. Fiskur er dreginn úr sjó, verkaður og seldur, en sveitarfélögin koma hvergi nærri virðiskeðjunni og horfa á eftir aflaverðmætinu í vasa annarra. Þau hafa ekkert tilkall til veiðiréttarins sem gengur kaupum og sölum með tilheyrandi kollsteypum fyrir íbúana. Eitt dauðsfall, hjónaskilnaður eða bara ákvörðun eins manns getur umturnað atvinnulífi heils bæjarfélags. Slík óvissa hamlar bæði fjárfestingu á svæðinu og fólksfjölgun. Þessu þarf að breyta með fastri hlutdeild sveitarfélaga í auðlindagjaldi. Gildir þá einu hver auðlindin er.

 • Aukið sjálfstæði sveitastjórna og fjárforræði í eigin málum

Nýju og öflugra sveitastjórnstigi þurfa að fylgja markaðir tekjustofnar og sjálfstjórnarvald, sem nánar yrði skilgreint í lögum og í samráði og tengslum við sveitarfélögin innan viðkomandi svæðis og ríkisvaldið. Markmiðið er að efla lýðræði, dreifa valdi og stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

 • Rýmri strandveiðiheimildir og allur fiskur seldur rafrænt á fiskmarkaði eða seldur á markaðsverði í beinum viðskiptum

Úttekt á strandveiðum hefur sýnt að þær eru umhverfisvænar og lyftistöng fyrir sjávarþorpin. Ennfremur virðast veiðar með krókum ekki hafa teljandi áhrif á fiskistofna. Því teljum við rétt að auka þessar veiðar umtalsvert frá því sem nú er, auka frelsi til krókaveiða með línu eða handfærum fyrir einstaklinga og endurskoða síðan árangurinn að tveimur árum liðnum.

Tillögur okkar eru þessar:

 • Frjálsar línuveiðar, 90 daga á ári.
 • Frjálsar handfæraveiðar.
 • Frjálsar handfæraveiðar á makríl.
 • Hámark fjórar rúllur á hvern bát á handfæraveiðum.
 • Hver einstaklingur má aðeins eiga einn bát eða hlut í einum bát á frjálsum krókaveiðum.
 • Leyfa aukinn meðafla við grásleppuveiðar, brottkasti til höfuðs.
 • Sérstakt strandveiðileyfi fyrir báta sem stunda veiðar á skötusel í net.
 • Sérstakt strandveiðileyfi fyrir báta sem stunda síldveiðar í net.
 • Auðlindagjald greitt við löndun og upphæðin sú sama og í öðrum útgerðarflokkum.

Við viljum að allur fiskur sé seldur rafrænt í gegnum internetið á fiskmarkaði eða seldur á makaðsvirði milli útgerðar og vinnslu í beinum viðskiptum svo fiskvinnslur sitji við sama borð hvað fiskverð snertir og sjómenn hvað aflahlut snertir.

 • Ræsa strandsiglingar á ný og minnka álag á vegum

Þungaflutningar á landi valda miklum vegaskemmdum auk slysahættu. Við viljum gera úttekt á þessum kostnaði sem og kostnaði við strandsiglingar og athuga hvort ekki geti verið hagstæðara að ræsa strandsiglingar á ný.

 • Örva fyrirtæki með skattaafslætti til að hasla sér völl á landsbyggðinni

Aðstöðumunur á fyrirtækjarekstri í þéttbýli og dreifbýli er mikill, bæði vegna íbúatölu en einnig vegna kostnaðar við aðföng og flutninga. Þennan aðstöðumun er hægt að jafna með skattaafslætti fyrirtækja sem vilja hasla sér völl á landsbyggðinni, t.d. fyrstu þrjú ár frá stofnun. Í mörgum tilvikum gæti þetta skipt sköpum og til yrðu ný fyrirtæki sem annars hefðu aldrei litið dagsins ljós. Ríkissjóður þarf því ekki að verða af neinum tekjum nema síður sé. Fyrirmyndin er sótt til Noregs.

 • Byggja Ísland upp sem ferðamannaland með hreina og óspillta náttúru

Ljóst er að tækifæri til ferðamennsku á Íslandi munu stóraukast á næstu árum. Nauðsynlegt er að verja landið gegn ágangi og verðleggja aðgang samkvæmt eftirspurn. Skattheimta skal vera hófleg. Lög um land og nýtingu þess skal semja í samræmi við nýja stjórnarskrá með almannahag að leiðarljósi.

 • Sjálfbæran, samkeppnishæfan landbúnað

Markmiðið er að hér verði rekinn markaðsvænn landbúnaður. Miða skal að því að landbúnaðurinn fullnægi innanlandsmarkaði. Hann gerir það nú á sumum sviðum en ekki öllum. T.d. flytjum við inn grænmeti og ávexti í stórum stíl en ylræktinni innan lands hamlar hátt raforkuverð. Á sama tíma er rafmagn selt til erlendra stóriðjufyrirtækja til hrávöruframleiðslu fyrir verð sem haldið er leyndu fyrir landsmönnum. Við viljum beina raforkuframleiðslu framtíðarinnar á innanlandsmarkað og nýta þessa auðlind í auknum mæli fyrir okkur sjálf, m.a. til ylræktar. Þannig m.a. er hægt að skapa landbúnaði skilyrði til að þjóna innlendri eftirspurn. Fleira má nefna eins og fækkun milliliða, einfaldara sölukerfi, beint frá býli, skógrækt og vindorku.