Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar helgast af upphafsorðum frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá: Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Hér er lýst í stuttu máli helstu stefnumálum Lýðræðisvaktarinnar ásamt hugmyndum að nánari útfærslu stefnumiðanna. Stefnuskráin er ekki meitluð í stein, heldur mun hún halda áfram að þróast í samræmi við ábendingar, sem Lýðræðisvaktin þiggur með þökkum.

Við viljum

 • Jafna hlut kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins

Það er útilokað að tala um mannréttindi án þess að tala sérstaklega um réttindi kvenna, en margt bendir til þess að við eigum ennþá langt í land til að raunverulegu kynjajafnrétti verði náð í íslensku samfélagi.
Nauðsynlegt er að efla rannsóknir á lífi og störfum kvenna á öllum sviðum samfélagsins til að leiða fram í dagsljósið raunverulega stöðu þeirra. Tryggja þarf að farið sé að landslögum sem mæla fyrir um að greint skuli á milli kynja í söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu upplýsinga. Sama gildir um skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga og tryggja að þessum ákvæðum sé líka fylgt í nefndum Alþingis.

 • Lögfesta sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks og banna alla mismunun með lögum

Við verðum að gera átak í málefnum fatlaðra og annarra minnihlutahópa til þess að vinna gegn mismunun á meðal okkar. ÍEins og staðan dager í dag er fjarri því að við sitjum öll við sama borð. Til þess að breyta því verðum við m.a. að lögfesta sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra og gera mismunun ólöglega í hvaða mynd sem er.

 • Tryggja fólki af erlendum uppruna upplýsingar um félagsleg réttindi sín, möguleika til náms og nauðsynlegan stuðning

Fólki af erlendum uppruna fer fjölgandi í íslensku samfélagi og brýnt er að gera það sem þarf til þess að allir sem hér búa eigi jafnan rétt til að nýta sér tækifæri til betra lífs. Því er mikilvægt að efla réttlæti á meðal okkar, félagslega samheldni og jafnræði allra þjóðfélagshópa, m.a. með því að þrýsta á um að íslensk stjórnvöld verði við hvatningu ECRi-nefndar EvrópusambandsinsEvrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRi-nefndarinnar) um að styrkja varnir gegn kynþáttafordómum og kynþáttamisrétti.

Mikilvægt er að stuðla að því að allir njóti góðs af fjölbreytilegum styrkleikum samfélagsins. Það þarf að gera opinbera þjónustu aðgengilega fyrir fólk af ólíkum menningarlegum uppruna og fólki sem ekki talar íslensku. Samhliða íslenskukennslu fyrir alla þarf að styðja móðurmálskennsku innflytjenda og tryggja að fjölbreytilegur bakgrunnur fólks nýtist í námi og starfi.

 • Efla hag örorku- og ellilífeyrisþega

Til þess að allir fái setið við sama borð í íslensku samfélagi er nauðsynlegt að huga sérstaklega að aðstæðum örorku- og ellilífeyrisþega. Í þessum málum þarf að gera átak ef að tryggja á að þessir hópar samfélagsins njóti réttinda sem sjá þeim fyrir mannsæmandi aðstæðum. Til þess að svo megi verða þarf m.a. að minnka aftur tekjuskerðingar í almannatryggingarkerfinu.

 • Útrýma kynbundnum launamun

Eitt af brýnustu réttlætismálum samfélagsins er að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Þrátt fyrir áralanga baráttu er enn langt í land og mörg dæmi eru um að sá árangur sem náðst hefur minnki ef slakað er á eftirfylgninni. Hluti af vandanum er vanmat á vinnuframlagi kvenna og hefðbundnum kvennastörfum. Kynbundnum launamun verður ekki útrýmt fyrr en tekið verður á þeim vanda. Kynskiptur vinnumarkaður er líka hindrun og þar verður að verða breyting á ef árangur á að nást; brjóta þarf upp staðalímyndir og þar með kynskiptan vinnumarkað. Þá er nauðsynlegt að vinna gegn hefðbundnum hugmyndum um karlmennsku og kvenleika á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst í fjölmiðlum.

 • Kynjaða hagstjórn

Innleiða þarf hagstjórn sem nýtist báðum kynjum jafnt bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Slíkt gerir alla fjárlagagerð og fjárhagsáætlanir markvissari. Kynjuð hagstjórn er notuð í vaxandi mæli og Sameinuðu þjóðirnar hafa mælt með þessari aðferð. Austurríki hefur innleitt kynjaða hagstjórn með góðum árangri. Byrjað var smátt, en vegna góðs árangurs á öllum sviðum, var hún innleidd að fullu. Þegar er í gangi tilraunaverkefni í fjármálaráðuneytinu og sjálfsagt að meta árangur af því. Sérstaklega þarf að gæta að jafnræði kynjanna í styrkveitingum í listum, menningu og vísindum.

 • Vinna gegn kynbundnu ofbeldi gegn konum og börnum

Kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum, og öðrum sem af einhverjum sökum geta ekki varið sig, eru algengustu og alvarlegustu mannréttindabrot á Íslandi . Þessi veruleiki er fullkomlega ólíðandi og er smánarblettur á upplýstu lýðræðissamfélagi. Nauðsynlegt er að varpa hulunni af því ofbeldi sem þrífst á meðal okkar hvort sem það er innan veggja heimilisins eða utan þess.

Markvissar aðgerðir og fræðsla geta skilað miklum árangri. Nýta þarf þekkingu á málaflokknum bæði innanlands og utan og efla samvinnu við sérfræðinga á þessu sviði og byggja á mikilvægri reynslu. Þá er nauðsynlegt að kalla karlmenn og drengi til ábyrgðar og skilnings. Vísir að slíku starfi er þegar fyrir hendi hér á landi og margvísleg reynsla utanlands sem byggja má á. Samvinna við félagasamtök, svo sem íþróttafélög og ýmsa aðila sem unglingar líta upp til, er mikilvæg. Brýnt er að vinna gegn stöðluðum og skaðlegum karmennskuímyndum. Kynjafræði gæti gegnt lykilhlutverki í þessu sambandi.

 • Sérstakan kynferðisbrotadómstól

Setja þarf á stofn sérstakan kynferðisbrotadómstól. Efla þarf kynferðisbrotadeild lögreglu og gera miklar kröfur um sérþekkingu starfsfólks. Neyðarmóttaka og Barnastofa gegna mikilvægu hlutverki sem ber að efla.

Það er óviðunandi að þolendur þessara alvarlegu ofbeldisbrota þurfi að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir niðurstöðu í málum sínum. Mikilvægt er að kanna og vinna gegn því mikla misræmi sem virðist vera í fjölda brota og þeirra mála sem kærð eru eða koma með öðrum hætti fram í dagsljósið og þeirra sem lýkur með dómsúrskurði.

 • Markvissar aðgerðir gegn mansali og vændi

Mansal og vændi er vaxandi böl í heiminum í dag og erfitt hefur reynst að stemma stigu við útbreiðslu þess. Til að vinna gegn mansali og vændi þarf markvissar aðgerðir sem snúa m.a. að rótum vandans, þar á meðal að hugmyndinni um að það sé undir einhverjum kringumstæðum réttlætanlegt að einstaklingar gangi kaupum og sölum.

Konur eru mun fleiri í hópi þolenda mansals en karlar. Það er löng hefð fyrir því að umbera sölu á líkama kvenna. Nauðsynlegt er að skoða mansal út frá afstöðu samfélagsins til kvenna og fordómum sem þar er að finna. Sala á fólki er aldrei réttlætanleg og samrýmist ekki grundvallarhugmyndum um samfélag sem vill tryggja réttlæti og jafnrétti allra þegna sinna.

Nauðsynlegt er að efla samvinnu ólíkra aðila innanlands og utan í nánu samráði við þá er gerst þekkja til þessara mála.

 • Vinna gegn klámi og klámvæðingu

Klám er alvarlegt þjófélagsmein og hefur mikil og skaðleg áhrif á ungt fólk af báðum kynjum. Það ýtir undir ranghugmyndir og staðlar kynímyndir. Ofbeldi gegn konum og börnum er ríkjandi hugmynd í klámiðnaði sem réttlætir það. Gera þarf börnum og unglingum grein fyrir því með markvissri kynfræðslu að ofbeldi og kynlíf eru ekki tvær greinar af sama meiði og er ósamrýmanlegt.

Leita þarf allra leiða til að verja unglinga fyrir áhrifum kláms með forvörnum og öflugri fræðslu, m.a. um netsíur fyrir einkatölvur. Samstarf skóla og heimilis er mikilvægur þáttur í því að ná árangri í þessum efnum. .

 • Ábyrga fjölmiðla

Mikilvægt er að fjölmiðlar virði kynjajafnrétti og vinni gegn staðalímyndum sem gjarnan eru rækilega staðfestar í fjölmiðlum. Fjölmiðlar þurfa að gæta kynjajafnréttis í vali starfsfólks, ekki síst stjórnenda og í framleiðslu efnis og stjórnun dagskrárgerðar. Jafnframt þarf að gæta jafnræðis í vali viðmælenda og annarra sem koma fram í fjölmiðlum.