Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar helgast af upphafsorðum frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Hér er lýst í stuttu máli helstu stefnumálum Lýðræðisvaktarinnar ásamt hugmyndum að nánari útfærslu stefnumiðanna. Stefnuskráin er ekki meitluð í stein, heldur mun hún halda áfram að þróast í samræmi við ábendingar, sem Lýðræðisvaktin þiggur með þökkum.

Við viljum

  • Skapandi skóla

Samfélag framtíðarinnar mun byggja á sköpun, hugviti, þekkingu og mannauði. Þetta kallar á breyttar áherslur í skólastarfi. Það er sýn Lýðræðisvaktarinnar að fyrstu ár leik- og grunnskóla séu mikilvægustu mótunarárin og þar þurfi sérstaklega að vanda aðferðir, stefnu og markmið. Á fyrstu árunum er æskilegt að leggja jafn ríka áherslu á fjölbreytt fög, eins og handverk, íþróttir, myndlist, leiklist, tónlist, lestur, stærðfræði, siðfræði og kynjafræði. Leikur, samvinna og sköpun skulu ávallt vera í fyrirrúmi. Með fjölbreytni er unnið gegn einsleitni sem oftar en ekki elur á fordómum og jafnvel einelti. Með fjölbreytni að leiðarljósi gefst fleiri nemendum kostur á að rækta og njóta hæfileika sinna og ná árangri í lífi og starfi.

Í nýrri aðalnámskrá eru skilgreindir eftirfarandi sex grunnþættir í íslenskri menntun í leik-, grunn- og framhaldsskólum: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, og sköpun. Þessir grunnþættir menntunar eru skilgreindir betur í aðalnámskrá og flest horfir til mikilla bóta. Fylgja þarf eftir góðum markmiðum og reyna að tryggja að þau náist og verði ekki einungis fögur fyrirheit á blaði eins og raunin hefur orðið með list- og verkmenntagreinar. Við viljum að grunnskólinn þjálfi börn í gagnrýnni hugsun og rökræðu svo þau verði betur undir það búin að taka þátt í lýðræðissamfélagi.

Mikilvægt er að efla rannsóknir á skólastarfi barna á fyrstu árum leik- og grunnskóla til að bæta kennsluaðferðir og auka fjölbreytni.

  • Sníða skólastarf betur að þörfum nemenda

Of mörgum íslenskum grunnskólabörnum líður illa í skólanum. Brottfall úr framhaldsskólum er meira á Íslandi en í nágrannalöndunum. Rækta þarf styrkleika nemenda en snúa frá því að allir fái nákvæmlega eins menntun óháð hæfileikum.

  • Breytt starfsumhverfi kennara

Kennslu- og uppeldisstörf eru stórlega vanmetin og launakjör í engu samræmi við ábyrgð og skyldur sem kennarar bera. Skólar gegna sífellt stærra hlutverki í uppeldi og mótun barna og ungmenna og til kennara eru gerðar síauknar kröfur í starfi. Eðlilegt væri að mikilvægi uppeldis- og kennslustarfa endurspeglaðist í virðingu og mati samfélagsins.

  • Tryggja jafnrétti til náms

Öllum verði gert kleift að stunda grunnnám óháð efnahag. Bæta þarf aðgengi fatlaðs fólks að námi og auka aðstoð við nemendur, m.a. vegna skertrar tungumálakunnáttu. Sérstaklega verði hugað að þörfum nemenda af erlendum uppruna. Einnig verði aukið námsframboð í framhaldsskólum um land allt t.d. með fjarnámi og lotukennslu.

  • Efla fullorðinsfræðslu, endurmenntun og starfsþjálfun

Vinnumarkaður nútímans breytist hratt og ekki er lengur algengt að fólk vinni hjá sama vinnuveitanda alla ævi. Þá hefur vægi símenntunar aukist mikið vegna nauðsynjar á að fólk uppfæri þekkingu sína og tæknikunnáttu. Öflug fullorðinsfræðsla, starfsþjálfun og endurmenntun er nauðsynleg til að koma til móts við þarfir einstaklinga sem vilja færa sig á milli starfa og tileinka sér nýja þekkingu og tækni.

  • Efla vísindi, listir, menntun og menningu

Lýðræðisvaktin vill efla menningu því að hún eykur lífshamingju og víðsýni og gefur lífinu aukið gildi. Öflug menningarstarfsemi skapar líka fjölda atvinnutækifæra og virðisauka til samfélagsins.

Góð menntun er aðgöngumiði að menningu heimsins, veitir möguleika til þroska og fjölgar tækifærum til að njóta lífsins. Ennfremur gefur menntun fólki færi á áhugaverðum og vel launuðum störfum.

Menntunarstig hefur mikil áhrif á fjárhagslega afkomu einstaklinga og samfélaga og aukin menntun örvar atvinnu.
Framboð á iðn- og tæknimenntuðum einstaklingum annar ekki eftirspurn. Framlög Íslands til háskólamenntunar eru undir meðaltali OECD. Háskólamenntun gefur meiri virðisauka til samfélagsins en önnur skólastig samkvæmt OECD. Því vill Lýðræðisvaktin sérstaklega leggja áherslu á iðn- og tæknimenntun og endurskipuleggja og efla háskólastigið.