Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar helgast af upphafsorðum frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Hér er lýst í stuttu máli helstu stefnumálum Lýðræðisvaktarinnar ásamt hugmyndum að nánari útfærslu stefnumiðanna. Stefnuskráin er ekki meitluð í stein, heldur mun hún halda áfram að þróast í samræmi við ábendingar, sem Lýðræðisvaktin þiggur með þökkum.

Við viljum

  • Samþykkja nýja stjórnarskrá í samræmi við skýran vilja kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012

Þjóðin er uppspretta valdsins og hún á sjálf að skipa sínum málum með því að gera nýjan samfélagssáttmála við sjálfa sig, umheiminn og komandi kynslóðir.

Íslenska leiðin við að semja nýja stjórnarskrá hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim. Ferlið var opið og gegnsætt. Þátttaka almennings var tryggð allan tímann. Fyrst var skipuð stjórnlaganefnd sem vann mjög gott verk og skilaði veglegri og vandaðri skýrslu með margvíslegum upplýsingum og tillögum. Nefndin stóð fyrir þjóðfundi þar sem tæplega þúsund manns, valin af handahófi úr þjóðskrá, komu saman til að ræða grunngildi, hugtök og óskir um nýtt og betra þjóðfélag. Þá var efnt til kosninga til stjórnlagaþings og buðu sig fram 522 einstaklingar. Kosnir voru 25 fulltrúar til þingsins. Hæstiréttur Íslands ógilti kosninguna á tæknilegum forsendum þar sem því var haldið fram að einhver eða einhverjir hefðu hugsanlega getað haft rangt við einhvers staðar en engar vísbendingar voru um slíkt. Ákvörðun Hæstaréttar var því alfarið byggð á tilgátum en ekki staðreyndum. Enginn vafi þótti á því að þeir sem flest atkvæði hlutu væru þeir sem kjósendur höfðu valið til verksins. Alþingi hafði eftir úrskurð Hæstaréttar óbundnar hendur til að skipa hvaða fólk sem það vildi í hvaða ráð sem var um nýja stjórnarskrá. Alþingi valdi þau 25 sem áður höfðu hlotið kosningu enda ekkert athugavert við valið og engar vísbendingar um misferli í aðdraganda eða kjörinu sjálfu.

Stjórnlagaráð hóf störf á vordögum 2011 og skilaði fullbúnu frumvarpi eftir 4 mánaða vinnu og afhenti forseta Alþingis 29. júlí sama ár. Samstaða hópsins var mikil. Tillögurnar voru samþykktar 25/0. Vinnubrögðin byggðust á einörðum skoðanaskiptum og virðingu og þeirri vissu að sérhver grein batnaði við aðkomu sérfræðinga og ekki síst almennings.

Alþingi sat á málinu í rúmt ár en lagði loks fyrir þjóðina 6 spurningar. Um helmingur þjóðarinnar tók þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 sem er hátt hlutfall í samanburði við aðrar kosningar af líku tagi. Niðurstaðan var skýr. Mikill meirihluti þjóðarinnar vill tillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá.

Lýðræðisvaktin vill að þessi þjóðarvilji sé virtur.

  • Auðlindir í þjóðareigu, jafnt vægi atkvæða, óspilltar embættaveitingar og greiðan aðgang að opinberum gögnum nema þau varði þjóðaröryggi

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni lýstu 83 af hundraði sig fylgjandi því að auðlindir verði skilgreindar þjóðareign.
Lýðræðisvaktin styður jafnt vægi atkvæða enda tekur hún undir þau orð í aðfaraorðum nýrrar stjórnarskrár að allir landsmenn skuli sitja við sama borð. Þjóðin hefur einnig talað í þessum efnum og vill breytingar á kosningalöggjöf með jöfnu vægi atkvæða.

Í frumvarpinu eru ákvæði sem er ætlað að draga úr spillingu við embættaveitingar. Lýðræðisvaktin mun vinna gegn spillingu, frændhygli og vinavæðingu.

Lýðræðisvaktin vill gegnsæi í stað gruggs. Stjórnvöld hafa hingað til oft komið málum á dagskrá og sett lög með því að leyna upplýsingum sem hefðu getað varpað ljósi á ferlið og kollvarpað illa ígrunduðum áformum.

Lýræðisvaktin byggir stefnu sína á meginhugsun nýrrar stjórnarskrár og vill stuðla að auknu lýðræði og aðkomu almennings að ákvarðanatöku í stórum málum.

  • Að verði stjórnarskráin samþykkt skal halda nýjar kosningar sem fyrst skv. nýjum kosningalögum

Lýðræðisvaktin telur rétt að boða til nýrra kosninga eftir að ný stjórnarskrá hefur verið samþykkt og þjóðin fái sem fyrst að kjósa nýtt þing á grunni nýrrar stjórnarskrár og nýrra laga. Þar með verður mikilvægum áfanga náð í uppgjöri hrunsins og hægt að hefjast handa við endursköpun þjóðfélagsins með hreint borð.