Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar helgast af upphafsorðum frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Hér er lýst í stuttu máli helstu stefnumálum Lýðræðisvaktarinnar ásamt hugmyndum að nánari útfærslu stefnumiðanna. Stefnuskráin er ekki meitluð í stein, heldur mun hún halda áfram að þróast í samræmi við ábendingar, sem Lýðræðisvaktin þiggur með þökkum.

Við viljum

 • Samfélagslega samábyrgð og samhjálp og forgangsraða í velferðarmálum

Ekki eru líkur á að fjárframlög til velferðarmála muni aukast mikið á næstu árum. Nauðsynlegt er að verja velferðarkerfið og efla, ef aðstæður leyfa, en forgangsröðun er lykilatriði. Þar gæti Velferðarvakt Velferðarráðuneytisins gegnt mikilvægu hlutverki, en hún „vaktar“ veikustu hópa samfélagsins. Gagnasöfnun og greining gagna eftir kyni, aldri og tekjum er forsenda skynsamlegrar ákvarðanatöku. Hafa verður í huga að niðurskurður í velferðarkerfinu kemur verst niður á hópum sem standa höllum fæti.
Umönnunarstörf eru vanmetin og launin endurspegla þá staðreynd. Þau eru ekki í neinu samhengi við ábyrgð og menntun þeirra stétta sem bera velferðarsamfélagið uppi. Það er forgangsmál um leið og efni standa til að leiðrétta kjör þessara stétta. Sífellt þarf að leita leiða til að auka þátttöku karla í þessum greinum.
Niðurskurður í velferðarkerfinu bitnar með tvennum hætti á konum. Þær missa störf, auk þess að ólaunuð umönnunarstörf flytjast í ríkara mæli inn á heimilin.
Efna þarf til nánara samstarfs við frjáls félagasamtök um lausn á aðkallandi velferðarmálum og búa þessum samtökum um leið styrkari starfsgrundvöll.

 • Marka fjölskyldustefnu með hag barna í fyrirrúmi

Fjölskyldan í öllum sínum fjölbreytileika er grunneining samfélagsins. Nauðsynlegt er að standa vörð um hana og samfélagslegt hlutverk hennar. Í öllum tilvikum þarf að hafa börnin og þeirra velferð í fyrirrúmi. Það er mikilvægt að huga að öryggi barna og möguleikum þeirra til þess að fá að nota hæfileika sína og þroska sem best.

 • Stytta vinnutímann í áföngum í 35 stundir á viku og vinna að samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs

Óhófleg vinna og langur vinnutími einkennir vinnumarkaðinn á Íslandi og skerum við okkur frá öðrum velferðarsamfélögum í þeim efnum. Þetta hindrar samveru fjölskyldna og gerir foreldrum erfitt um vik að sinna uppeldi og umönnun barna eins og skyldi. Langur vinnutími tryggir ekki framleiðni og margt bendir til þess að hann sé ein orsök þess hve hún er lág hér á landi.
Samfélagið verður að laga sig að breyttum háttum og taka mið af gjörbreyttum aðstæðum kvenna, sem eru flestar úti á vinnumarkaði. Því miður hefur þátttaka karla í heimilisstörfum og uppeldis- og umönnunarstörfum ekki aukist að sama skapi og þátttaka kvenna á vinnumarkaði.

 • Fjölbreyttari kosti í húsnæðismálum

Allar fjölskyldur þurfa þak yfir höfuðið og því er forgangsmál að þeim sé gert kleift að leigja eða kaupa húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Það er óásættanlegt að ungt fólk þurfi að steypa sér í skuldafen sem það festist í ævilangt og undirstrikar það nauðsyn þess að taka á verðtryggingu og skuldamálum. (Sjá efnahagsvaktina)

Það þarf að hyggja að fjölbreyttari kostum, svo sem félagslegum – og kaupleiguíbúðum, en ekki síst að heilbrigðum leigumarkaði og vinna gegn þeirri nauðhyggju að einkaeign á húsnæði sé eini kostur fólks. Horfa þarf til lánskjara, verðtryggingar, húsnæðis- og vaxtabóta og Íbúðalánasjóðs.

 • Standa vörð um almannatryggingar og félagsþjónustu og beina þeim markvisst að þurfandi hópum

Svo öryggisnet velferðarkerfisins haldi til frambúðar er nauðsynlegt að möskvastærðin sé hæfileg. Hún má ekki vera svo stór að netið fangi ekki þurfandi fólk, en heldur ekki vera svo lítil að sjálfbjarga fólk sitji fast í netinu. Sömuleiðis þarf að einfalda almannatryggingakerfið og gera það aðgengilegra fyrir þau sem njóta þjónustu þess. Í því skyni væri greiðslustofa sem annaðist lífeyris- og tryggingagreiðslur til aldraðra og öryrkja góður kostur. Einnig viljum við efla heimaaðhlynningu og skoða hvort ekki eigi að meta til fjár framlag maka heima fyrir.

 • Breyta stöðlum örorkumats

Öryrkjum hefur fjölgað hratt á síðustu árum, m.a. vegna þess að læknisfræðileg greining ein og sér er lögð til grundvallar en ekki mat á starfsgetu eins og áður var. Athuga þarf sérstaklega stöðu kvenna í þessu tilliti.

 • Að heimahjúkrun og aðstoð við aldraða verði sett í forgang

Allir vilja vera heima sem lengst. Heimahjúkrun eða aðstoð er mun ódýrari kostur en stofnanavist. Hér fara hagsmunir notenda þjónustunnar og veitenda saman. Við þetta bætist að þjóðin eldist hratt. Samkvæmt mannfjöldatali voru Íslendingar 67 ára og eldri 31.000 árið 2010, verða 42.000 árið 2020 og 53.000 árið 2030. Framtíðarskipan þessarar þjónustu er brýnt forgangsmál í heilbrigðisþjónustu.

 • Manneskjulega langtímavistun aldraðra

Mörgum reynist erfitt að yfirgefa heimili sitt í hinsta sinn til langtímadvalar á stofnun. Slíkar stofnanir eiga að raska sem minnst daglegu lífi fólks og tryggja friðhelgi, aðgengi og frelsi til athafna. Fjölbreytni dvalarheimila teljum við til bóta enda fjölgi hún valkostum.

 • Tryggan ævisparnað

Nauðsynlegt er að endurreisa traust almennings á lífeyriskerfinu. Auka verður kröfur um fagleg vinnubrögð og gegnsæi í störfum lífeyrissjóða. Treysta verður skilyrði þeirra til að ávaxta fé sjóðsfélaga svo hægt verði að bæta kjör lífeyrisþega. Samræma þarf lífeyrisrétt milli hins almenna vinnumarkaðar og opinbera geirans. Girða þarf fyrir hættuna á að lífeyrissjóðir verði ríki í ríkinu í krafti eignarhalds á fyrirtækjum. Lýðræðisvæðum lífeyrissjóði með beinni aðkomu almennra sjóðsfélaga að vali forsvarsmanna. Gleymum því ekki að lífeyrissjóðir eru eign almennings.

 • Afnám forréttinda

Endurskoða þarf lífeyrisréttindi alþingismanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands til að tryggja samræmi við réttindi annarra hópa, svo að enginn njóti eftirleiðis ávinnings af því kerfi mismununar og forréttinda sem verið hefur við lýði í lífeyrismálum.

 • Að öllum sé tryggður réttur til viðeigandi, aðgengilegrar og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu

Þetta er í samræmi við ákvæði nýrrar stjórnarskrár og tryggir öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

 • Marka framtíðarstefnu í heilbrigðismálum og ekki tjalda til einnar nætur

Rúmlega 40% ríkisútgjalda fara í að standa undir heilbrigðisþjónustu, almannatryggingum og velferðarmálum. Þjóðin ver um 8% af landsframleiðslu til heilbrigðismála. Ljóst er að þessi hlutföll munu hækka á komandi árum. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld meti vandlega hvernig skal forgangsraða þjónustu, hvar þörfin er mest og hvernig fjármunum er best varið.

 • Efla grunnþjónustu og auka fjölbreytni rekstrarforma

Heilbrigðisskýrslur hér á landi og annars staðar sýna að það er hagkvæmt bæði heilsufarslega og fjárhagslega fyrir ríkissjóð að öflug heilsugæsla sé starfrækt um allt land. Aðgengi að þessari þjónustu er ófullnægjandi sem stendur. Gera má frekari tilraunir með rekstrarfyrirkomulag til að efla heilsugæsluþjónustu. Það hafa nágrannar okkar á Norðurlöndum gert. Við viljum koma á kerfi þar sem allir landsmenn geta gengið að sínum heimilislækni vísum.

 • Minni og manneskjulegri rekstrareiningar til að veita alhliða grunnþjónustu fyrir alla landsmenn í heimabyggð

Ríkjandi stefna í heilbrigðismálum miðast að því að beina sjúklingum sem flestum á einn stað. Þessu viljum við snúa við og beina fremur starfsfólki á heimaslóðir sjúklinga. Þannig geta landsmenn notið þjónustunnar í heimabyggð og starfsfólki bjóðast fleiri kostir um búsetu og starfsval. Mikið er til af ónýttu húsnæði og tækjakosti víða um land sem við viljum nýta. Sparnaður vegna ferða sjúklinga, vinnumissis og sjúkraflutninga er augljós.

 • Efla forvarnir og lýðheilsu

Fyrirbygging sjúkdóma og snemmgreining þeirra eykur lífsgæði og sparar fé. Fræðsla gegnir þar mikilvægu hlutverki en einnig er nauðsynlegt að vekja fólk til vitundar um ábyrgð á eigin heilsu. Mataræði, hreyfing og umhverfisvitund eru lykilatriði.

 • Byggingu nýs Landspítala verði slegið á frest

Í samræmi við þá stefnu að draga úr vægi miðlægrar heilbrigðisþjónustu teljum við byggingu nýs hátæknisjúkrahúss ekki forgangsmál. Landspítali mun þó gegna áfram sínu hlutverki sem miðstöð lækninga á Íslandi. Brýnast er nú að bæta aðbúnað og kjör starfsfólks spítalans og öðrum sjúkrastofnunum hins opinbera.