Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar helgast af upphafsorðum frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Hér er lýst í stuttu máli helstu stefnumálum Lýðræðisvaktarinnar ásamt hugmyndum að nánari útfærslu stefnumiðanna. Stefnuskráin er ekki meitluð í stein, heldur mun hún halda áfram að þróast í samræmi við ábendingar, sem Lýðræðisvaktin þiggur með þökkum.

Við viljum

  • Að ákvörðun um inngöngu í ESB verði ekki tekin nema í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í samræmi við ákvæði nýrrar stjórnarskrár

Aðild að ESB felur í sér framsal á fullveldi. Þjóðin er yfirboðari Alþingis og hún ein getur ákveðið, hvort Ísland gengur í ESB eða ekki. Alþingi á aldrei að leyfast að taka ákvörðun um aðild að ESB upp á sitt eindæmi. Alþingi þarf að lúta vilja fólksins í landinu í öllum málum sem varða framsal fullveldis. Lýðræðisvaktin tekur ekki afstöðu til aðildar Íslands að ESB, þar eð málinu verður ráðið til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

  • Ljúka samningaviðræðum við ESB

Samningaviðræður við ESB standa yfir og þeim ber að ljúka, svo unnt sé að halda áfram innan eða utan ESB í samræmi við vilja þjóðarinnar

  • Gæta hagsmuna Íslands í hafréttarmálum

Við viljum hafa vakandi auga með landgrunninu umhverfis Ísland og gera tilkall til hlutdeildar í alþjóðlegum hafsvæðum á norðurslóðum. Málið er brýnt vegna þess að hlýnun loftslags og sjávar opnar nýjar leiðir og aðgang að auðlindum í framtíðinni.

  • Að aðild að stríði verði háð samþykki þings og þjóðar

Það má aldrei aftur verða að tveir ráðherrar ákveði upp á sitt eindæmi að gera Ísland að þátttakanda í stríði án þess að Alþingi fái rönd við reist.

  • Vinna með öðrum þjóðum að friði

Ísland er herlaust land. Herskyldu má aldrei í lög leiða eins og kveðið er á um í nýrri stjórnarskrá. Okkur ber að vinna að friði og hagsæld á vettvangi alþjóðastofnana, sem Ísland er aðili að, m.a. með myndarlegri þróunarsamvinnu.